Minnkum líkur á álagstengdum vandamálum!

16.02.2021

Mikil vakning og umræða hefur verið að undanförnu um áhrif mikils andlegs og líkamlegs álags sem nútímalíf getur haft í för með sér.

Líkja má brottfalli fólks af vinnumarkaði á Íslandi og víða í hinum vestræna heimi vegna álagstengdra vandamála – oft nefnt kulnun – við faraldur sem nauðsynlegt er að bregðast við enda er kostnaður vegna hans gríðarlegur bæði fyrir einstaklinga, vinnuveitendur og samfélög.

Rögn ráðgjöf hefur á síðustu misserum unnið að greiningu á ástæðum þess að fólk verður óvinnufært um skemmri eða lengri tíma vegna álagstengdra vandamála og býður nú lausn sem hefur að markmiði að minnka líkur á því að slíkt gerist.

Lausnin felur í sér samstillt átak vinnuveitanda og starfsmanna í að greina álagstengda þætti bæði í starfi og einkalífi og vinna með markvissum hætti í því að fjarlægja ónauðsynlega álagsvalda og þjálfa álagsþol.

Hlutverk vinnuveitanda:

  • Greining á starfsumhverfi. Ráðgjafi framkvæmir í samstarfi við starfsfólk markvissa greiningu á starfsumhverfinu með það að markmiði að bera kennsl á álagsvalda. 
  • Umbætur á starfsumhverfi. Unnið er að endurskipulagningu vinnuumhverfisins undir leiðsögn ráðgjafa með það að markmiði að fjarlægja ónauðsynlega álagsvalda og auka skilvirkni.
  • Þjálfun starfsfólks. Starfsfólk fær þjálfun sem hefur að markmiði að auka hæfni þess til að takast á við álag í starfi og auka álagsþol.

Hlutverk starfsmanns:

  • Greining á álagsþáttum í einkalífi. Starfsmaður framkvæmir undir leiðsögn ráðgjafa markvissa greiningu á einkalífi sínu með það að markmiði að bera kennsl á álagsþætti. Niðurstöður greiningarinnar eru persónuleg eign starfsmanns og eru ekki gerðar aðgengilegar vinnuveitanda nema starfsmaður kjósi að gera slíkt sjálfur.
  • Umbætur í einkalífi. Starfsmaður fær í hendur verkfæri sem hjálpa honum að tileinka sér hegðunarmynstur í daglegu lífi sem  vinna gegn neikvæðum áhrifum langvarandi álags.
  • Álagsþjálfun. Starfsmaður lærir aðferðir sem hafa að markmiði að vinna markvisst með álagsþætti í einkalífi og minnka líkur á að þeir hafi neikvæð áhrif á lífsgæði til lengri tíma.

Stytting vinnutíma hefur verið einn af lykiláhersluþáttum launþegahreyfingarinnar í liðnum og yfirstandandi kjarasamningum. Rögn ráðgjöf leggur til að álagsgreiningar líkt og hér er lýst séu framkvæmdar samhliða tilraunum til útfærslu á styttingu vinnutíma. Þannig má ná fram þríþættum árangri af verkefninu, þ.e. auka skilvirkni í starfi og einkalífi, fjarlægja ónauðsynlega álagsþætti og auka álagsþol. Allt ætti það að stuðla að því marki að minnka líkur á að álagstengd vandamál verði kostnaðarsöm á þínum vinnustað.

Rögn byggir á áratuga reynslu af stefnu­mótun, stjórnun, rekstri og mannauðs­­málum. Lögð er áhersla á skilvirkni, árangur, fag­mennsku og gagn­kvæmt traust. Við trúum því að sveigjan­leiki og opin samskipti tryggi hámarks ávinning samstarfs­aðila.