Í stjórnunarkenningum er því jafnan haldið fram að tengsl séu milli starfsánægju og framleiðni starfsfólks. Þeir sem hafa reynslu af stjórnun vita að sú er ekki alltaf raunin. Tengsl þessara þátta eru eins og svo margt annað í lífinu, flókin. Fyrirtæki og stofnanir sem ganga til að mynda of langt í því að auka starfsánægju starfsmanna geta lent í þeirri stöðu að missa stjórn fyrirtækisins yfir til starfsmanna og gleyma öðrum grundvallarþáttum í rekstri eins og sambandi sínu við viðskiptavini.
Rannsóknir hafa sýnt að þeir þættir sem oftast draga úr ánægju starfsmanna á vinnustað eru skortur á upplýsingaflæði og endurgjöf, álag og lítil tækifæri til starfsþróunar. Stjórnendur geta gert margt til að bæta þessa þætti með því að tileinka sér aðferðafræði innihaldsríkrar stjórnunar.
Helstu gildrur stjórnandans eru eftirfarandi.
#Að vera einn um sýnina – miðla henni ekki
Það er eitt mikilvægasta hlutverk stjórandans að vera boðberi framtíðarsýnar fyrirtækisins. Hann þarf með miðlun sinni á henni að tryggja að hver og einn starfsmaður sé með það á hreinu hvernig hann geti með sínu framlagi unnið að því að fyrirtækið eða stofnunin nái árangri á hverjum degi.
Sumir stjórnendur telja fullnægjandi að miðla sýninni og leiðum að henni á árlegum starfsdögum eða starfsmannafundum en í raun er mun áhrifaríkara að tengja dagleg verkefni starfsmanns við sýnina. Þannig verður það skýrt í huga hvers starfsmanns hvernig hans framlag skiptir máli fyrir velgengni fyrirtækisins.
#Að deila ekki verkefnum – gera of mikið sjálf(ur)
Það eru algeng mistök stjórnenda að eiga í erfiðleikum með að treysta öðrum til verka. Það er hárfín lína á milli þess að vilja halda ákveðnum verkefnum fyrir sig og að nýta hæfni og tíma síns starfsfólks með fullnægjandi hætti.
Almenna reglan er þessi; Haltu aðeins þeim verkefnum hjá þér sem enginn annar getur sinnt jafnvel eða betur en þú. Á sama tíma skaltu huga að því að þjálfa starfsfólk þitt í að leysa þessi verkefni svo að þú getir haldið áfram að þróa hæfni þína, þíns starfsfólks og þar með fyrirtækisins til framtíðar.
#Að veita ekki endurgjöf – en finnast maður vera að gera það
Mörgum stjórnendum finnst sárt að sjá að þrátt fyrir að þeir leggi mikinn tíma í starfsmanna- og/eða frammistöðusamtöl einu sinni eða jafnvel oftar á ári, fái þeir lága einkunn í vinnustaðagreiningum þegar kemur að endurgjöf. Skýringin á því er einföld. Slík samtöl ein og sér nægja ekki til þess að veita starfsmönnum þá endurgjöf sem er nauðsynleg og þeir eiga skilið. Starfsmaður sem stendur sig framúrskarandi vel á skilið að fá að vita af því oftar en einu sinni eða tvisvar ár ári og að sama skapi er algjört lykilatriði að taka strax á því ef starfsmenn eru ekki að sýna fullnægjandi frammistöðu.
Dagleg frammistöðustjórnun kann að hljóma eins og óviðráðanlegt verkefni en þeir stjórnendur sem temja sér slíka stjórnunarhætti eru í raun að einfalda bæði sér og öðrum lífið samhliða því að skila í flestum tilfellum framúrskarandi árangri.
#Að þróast ekki og þroskast – að gleyma sér og öðrum
Það er í raun mýta að stjórnendur séu svo rosalega uppteknir að þeir hafi ekki tíma til að sinna eigin starfsþróun. Stjórnandi sem aldrei gefur sér tíma til þess að líta upp úr daglegum verkefnum til þess að horfa fram á veginn og auka hæfni sína með það að markmiði að auka virði sitt og samkeppnishæfni er vond fyrirmynd. Hann sendir þau skilaboð til starfsmanna sinna að það sé engin þörf á að huga að þróun sinni og þroska og að engin sérstök ástæða sé til þess að tryggja virði sitt í nútíð og framtíð.
Það sem alvarlegara er, stjórnandi sem ekki er góð fyrirmynd þegar kemur að eigin starfsþróun sendir einnig þau skilaboð að það sé engin ástæða til þess að þróa hæfni fyrirtækisins og auka þannig samkeppnishæfni þess í nútíð og framtíð.
#Að vera ekki einlæg(ur) – að byggja ekki upp traust
Forsenda gæfuríkra sambanda milli fólks er traust. Traust skapast ekki milli aðila nema einlægni ríki í samskiptum. Ef stjórnandinn er svo upptekinn af hlutverki sínu að hann gleymir að vera hann sjálfur er líklegt að hann missi sambandið við starfsmenn sína og þar með aðra hagsmunaaðila. Starfsmenn eru bæði talsmenn og eyru fyrirtækisins og því þarf stjórnandinn að vera í nánu talsambandi við sitt fólk.
Starfsmaður sem ekki treystir stjórnanda eða finnst hann ekki njóta trausts hans er ólíklegur til þess að miðla því sem aflaga fer eða getur farið í starfseminni. Það er því liður í áhættustýringu fyrirtækis eða stofnunar að eiga traust samband við alla starfsmenn. Þeir stjórnendur sem njóta trausts þurfa yfirleitt ekkert að óttast.
Ef þú ert stjórnandi og telur þig ekki búa yfir tækni til þess að koma í veg fyrir að þú lendir í stjórnandagildrum eða vilt ná tökum á tækni innihaldsríkar stjórnunar skaltu hafa samband.